Af Elínu er það að segja...

Sunday, March 16, 2008

Ein ég sit og sauma...

inni í litlu húsi, enginn kemur að sjá mig, nema litli fuglinn. Það er semsagt dugnaðurinn, ég er búin að sitja heima hjá mér í rúma tvo mánuði. Hef enga orku í að vinna þar sem öll orkan mín virðist fara í að búa til barn. Annars af öðrum barnamálum er það að frétta að Heba eignaðist son 8 mars eða á alþjóðlega kvennadaginn.

Eins og ég sagði þá sit ég heima hjá mér þessa dagana og geri mest lítið. Litli haninn minn er voða ánægður þar sem oftast fær hann að sitja hjá mér.

Það er búið að vera mikill snjór hérna í feb og mars. Það leit út fyrir það um daginn að hann væri að fara en svo kom bara enn meira. Finnar eru voða duglegir að moka snjó af gangstéttum, of duglegir að mínu mati. Ég sakna stundum illa sköfuðu gangstéttana úr Reykjavík. Málið er að þeir eiga til að skafa alla gangstéttina og svo slétt og fínt að þetta verður sleypt eftirá. Það er svosem í lagi þegar þeir setja sand á sem þeir eru oftast duglegir með. Það fer aftur á móti í verra þegar snjórinn er allur farinn og það er svo þykkt lag af möl á gangstéttinni að maður rennur í því. Ég bý á hæð og þarf alltaf að labba niður til að komast út úr húsi. Það getur verið svolítið erfitt stundum.

Það verður gert við húsið okkar í sumar og haust. Ætti að vera áhugavert. Lítur út fyrir að við verðum fyrir þónokkrum truflunum. Skv því sem mér skilst á að grafa niður að einum vegg, rífa mest af veggjunum utanfrá og laga þá og svo þurka þá innan frá. Þar sem þurkararnir þurfa 2 metra þá verður voða lítið eftir af íbúðinni til að búa í á meðan. Við þurfum líklegast að flýja eitthvert á meðan það stig gengur yfir. Svo rússínan í pylsuendanum eða þannig, litla krílið á að koma í maí þannig að það verður hérna á meðan ósköpin ganga yfir. Þetta er ekki alveg rólega sumarið sem ég hafði hugsað mér að hafa en það er víst lítið við því að gera.

Sunday, February 17, 2008

Ég er alltaf svo mikið á leiðinni að skrifa eitthvað hérna að ég bara næ því aldrei að koma þessu öllu niður. Ég ætlaði að segja frá hjúkkuhópuppsögnunum sem aldrei urðu, þeir sömdu við þær rétt í tæka tíð. Það á víst að verða einhver veruleg launahækkun. Þeir dreyfðu þessu á tvö ár ef ég man rétt. Sumir segja að þetta sé fín launahækkun, aðrir að þetta sé ekki svo gott.

Svo ætlaði ég líka að segja frá aumingja Nokiabúum sem lentu í því að fá skolpvatn í bland við drykkjarvatnið sitt svona rétt fyrir jól. Það tók víst voða langan tíma að hreinsa aftur vatnsleiðslurnar. Ég hef reyndar voða lítið heyrt af þessu þannig að ég veit ekki hvort þetta sé í lagi núna. Ég er voða ódugleg við að fylgjast með fréttum.

Ég fór til læknis um daginn til að láta taka af nokkra ljóta fæðingabletti, þetta eru reyndar engir FÆÐINGAblettir heldur klessur sem komu fyrir ca 3 árum. Ég bað lækninn um að taka 4 og hann tók 9. Ég er reyndar voða ánægð með það. Ég bað bara um þessa 4 af því mér var sagt að oftast tækju þeir 1-3. Þessir 4 voru á tveim stöðum þannig ég hélt það myndi reddast. Þessir blettir eru víst sauðmeinlausir en ákaflega ljótir. Ég fékk mikið af þeim á bakið eftir að ég ákvað eitt sumarið að sjá hvort ég gæti ekki orðið brún eins og allir hinir (tókst ekki).

Eitt enn sem ég er alltaf á leiðinni með er að setja upp smá síðu. Ég byrjaði á þessu fyrir nokkrum mánuðum og svo stoppaði það. Annars stendur það núna á því að maður þarf að borga smá fyrir síðuna og ég er ekki búin að því. Þarf að redda því áður en ég get haldið áfram. Það var enn eitt sem ég ætlaði að skrifa hérna, um síðuna og hafa linkinn.

Það hefur verið voða lítill vetur hérna núna. Það byrjaði ekki að snjóa fyrr en um miðjan janúar. Oft hefur frost hérna farið niður í -20°c en núna hefur það kaldasta sem ég sá verið -14°c eina nóttina. Oftast er hitinn um frostmark. Ég er reyndar voða fúl yfir þessu þar sem ég ætlaði að nota frostið til að afþýða ísskápinn. Er búin að plana þetta síðan í sumar.

Rétt fyrir jólin kom kona að mæla hjá okkur raka í veggjum. Þetta var sem betur fer innan eðlilegra marka. Það fynda var að ég var búin að vera voðalega dugleg að baka fyrir jólin og hún minntist á að hér væri góð lykt. Ég bauð henni upp á smáköku. Finnar eru ekki gefnir fyrir svona smáskraf við ókunnugt fólk. Eins og finnum ber hafði þessi kona bara einbeint sér að því sem hún var að gera þegar hún var að mæla veggina (það tók uþb klst). Þegar ég gaf henni smákökuna fór hún að tala við mig og sagði mér frá ferðaáætlunum sínum. Maður þarf semsagt að múta finnum með smákökum til að fá þá til að skrafa.

Thursday, October 25, 2007

Hjúkkur í Finnlandi eru að segja upp störfum sínum. Þessar hópuppsagnir eru til að krefjast betri launa. Samkvæmt stéttarfélaginu sem stendur á bakvið þetta eiga allir að fá störf sín aftur eftir samninga.

Ég sagði ekki upp. Ég var að hugsa um það en ákvað svo að aðstæður mínar eru ekki nógu hagstæðar til geta orðið atvinnulaus í einhvern tíma ef að í hið versta fer. Annars er ég með voða stuttan uppsagnafrest, bara 2 vikur. Þeir sem hafa unnið í 5 ár og lengur eru með mánaðar uppsagnafrest. Ef að þetta hefði verið amk mánuður hefði ég kannski sagt upp, hefði þá haft smá tíma til að líta í kring um mig á önnur störf.

Annars verður áhugavert að sjá hvað kemur út úr þessu. Mikið af hjúkkum af háskólasjúkrahúsinu hérna hefur sagt upp störfum sínum. Allar af hjartadeild, nærri allar af bráðavaktinni.

Það var íkorni að njósna um mig áðan. Heyrði einhvern voða skruðning og sá brúnleitt skott fyrir utan gluggan. Veit ekki hvort þetta sé sá sami íkorni og hefur áður verið að hoppa á glugganum mínum. Skil ekki hvað hann þykist finna þarna.

Það er voðalega kuldalegt hérna núna. Hitinn hefur verið 5-7 stig en það er samt skítakallt. Laufin eru flest fallin af trjánum. Nóvember heitir á finnsku marraskuu og einhvern tíman var mér sagt að marras er eitthvað kallt dimmt og drungalegt. Væri miklu betra ef snjóaði, en venjulega snjóar ekki fyrr en í desember eða síðar.

Thursday, August 16, 2007

Sól sól skýn á mig...

Átti ekki alveg að líða svona langur tími á milli færsla. Ég hef verið svo voða mikið að hugsa um það sem ég ætla að skrifa hérna og hvernig ég skrifa það að ég bara hef ekki haft tíma til að skrifa það.

Ég er í sumarfríi núna, verð enn í fríi út þessa viku. Ég ætla að skella mér til Austurríkis á morgun til að hitta netvinkonu mína. Þetta verður bara stutt helgarferð.

Það er búið að vera frekar blautt sumar hérna. Hefur verið heitt núna í ágúst en samt ekkert voða. Passar vel fyrir mig því að ég er ekkert hrifin af því að vera úti í 25+ stiga hita (vil ekki brenna, er löt við að bera á mig áburð svo það er léttara að vera bara inni) auk þess sem sólin skýn beint á stofu og eldhúsgluggana hjá mér og það er iðurlega 28-30 stiga hiti inni og frekar erfitt að lofta út.

Ég er enn að dansa á fullu og áhuginn virðist ekkert fara minkandi, þvert á móti. Ég var svo heppin að fríið mitt byrjaði akkúrat þegar flamencovika Tampere var (þeir eru víst búnir að vera með svoleiðis í nærri 20 ár). Ég fór semsagt á tvær sýningar og einn kúrs sem þeir voru með. Var að dansa í 2 klst á dag frá mánudegi til föstudags. Núna er ég svo á einum stuttum kúrs þar sem ég læri að dansa með sjal. Voða gaman að þeyta þessu um.

Hræðilegt að skrifa íslensku núna. Man ekki hvar á að vera einfaldur eða tvöfaldur samhljóði og er svona aðeins að rugla p og b. Finnar nota nefnilega ekki b, þeir nota p og bera það fram nærri því eins og b. Sama saga með t og d og svo k og g, nota þá fyrrnefndu en bera fram eins og þá fyrrnefndu.

Tvær samstarfskonur mínar skruppu til íslands í sumar. Önnur í júní og hin í júlí. Ég er búin að sjá myndirnar frá þeirri sem fór í júní. Hún skrapp í ráðhúsið og heilsaði upp á fyrrum samstarfélaga minn þar. Ég var búin að segja henni að ég hafi verið þar og að ég hafi verið í upplýsingadeildinni, var ekki viss um hvort hún myndi fara þangað eða hvort hún myndi vaða á einhvern og spjalla.

Ég er búin að vera í 2 brúðkaupum í sumar. Heba giftist í júní. Hún er núna frú Heba :-D Svo giftist líka finnsk vinkona mín í enda júlí.

Jæja ég þarf að fara að mauka berin mín. Ég er með berjarunna hérna og berin eru fullþroskuð. Það sem ég hef alldrei verið hrifin af að borða ber brá ég á það ráð í fyrra að mauka þau í matvinnsluvél og sýja safan frá. Kemur alveg ljómandi safi út úr þessu (að mínu mati, þeim sem hafa smakkað finnst hann of súr) sem ég svo frysti og er að lepja svona þegar ég man.

Tuesday, April 10, 2007

hvaða vika var það vænan?

Finnar eiga það til að telja í vikum. Ég las um endurbætur á búð og það á allt að vera tilbúið á viku 18. Veit einhver hvenær er vika 18? Ég held að við séum núna á viku 15, hef ekki græna glóru um hvort það sé rétt eða ekki. Man bara að læknirinn á deildinni okkar var í fríi viku 11 og það var fyrir nokkrum vikum.

Þetta er sossum hentugt kerfi nema það er bara smá galli, það veit enginn hvað um er að ræða. Maður þarf að fletta því upp.

Vinnan og vinnan, vinnan er ástæðan fyrir því að ég hef ekkert skrifað hérna. Það var smá vandi í vinnunni hjá mér, eiginlega ekki smá, svolítið stærri en smá. Ég var alvarlega að hugsa um að ganga út fyrir ca 2 vikum. Gerði það ekki en veit ekki alveg hvort að ég eigi að taka hlutina í sátt eður ei. Málin eru svolítið mikið í ólagi þar. Sjáum til.

Annars átti ég ágæta og afslappaða páska. Var í 5 daga fríi sem er sjaldgæfur lúxus. Ég gerði nákvæmlega ekki neitt. Við tókum aðeins til, íbúðin var í rúst, þvoði slatta af þvotti en fyrir utan það ekki neitt.

Fór á Edith Piaf myndina í dag. Var bara nokkuð góð. Alltaf gaman að horfa á franska mynd með finskum og sænskum texta. Mér tókst svona af og til að rugla sjála mig rækilega í ríminu með að gera það sem maður er vanur, lesa bara nokkur orð úr textanum hér og þar. Sama sagan tvisvar á tveim tungum. Held reyndar að ég hafi náð meiru úr finnska textanum en þeim sænska. Ég nota finnsku meira en sænsku heh.

Eitt fyndið með vinnuna, það er hún Irina. Irina er rússnesk kona. Ég hitti hana fyrst í feb 2004. Við vorum saman á finnskunámskeiði. Við byrjuðum á sama tíma og vorum báðar í 10 mánuði. Svo skildust leiðir. Ég hafði ekkert samband við hana. Svo í des 2005 byrja ég á deild 11 á Koukkuniemi, viku síðar labbar Irina inn, hún var þarna til að fá vinnureynslu (tíðkast svoleiðis á íslandi?). Irina var þarna í amk hálft ár áður en hún fór í skóla að læra til sjúkraliða. Ég hélt engu sambandi við hana frekar en fyrri daginn. Jæja svo byrja ég á deild 26 aka rugluðu deildinni. Viku síðar labbar Irina inn. Hún á víst að vera þarna í 3 mánuði sem verklegan hlut af náminu. Ég spurði hana hvert við förum næst, hún var ekki viss.

Þetta fer reyndar bráðum að verða eins og á íslandi hérna. Um daginn hitti ég eina konu úr flamenco hópnum mínum í búð. Daginn eftir hitti ég aðra stúlku úr flamenco hópnum á vinnustaðnum mínum. Ég hafði fengið þá flugu í hausinn að labba niður stigann í stað þess að taka lyftuna. Ég hitti hana í stiganum. Ég vissi ekki einu sinn að hún væri að vinna í heilbrigðisgeiranum. Hún var bara þarna í afleysingum svo ég efast um að ég hitti hana aftur.

Jæja, háttatími :-)

Tuesday, March 13, 2007

Lobba í sjónvarpinu

Af því að deildinni minni hefur verið lokað var hún notuð til að taka nokkrar senur fyrir einhvern sjónvarpsþátt. Ég og önnur stelpa sem vinnur með mér buðumst til að taka þátt, að leika hjúkkur. Þar sem deildin er frekar köld þá fór ég í lobbuna góðu sem Magga prjónaði yfir hjúkkufötin (ég tek hana ekki venjulega með í vinnuna, er allt of fín en ég var ekki að fara að gera neitt sem gæti skaðað hana). Þeim leist alveg ljómvel á lobbuna og þar sem ég átti að vera næturhjúkkan sögðu þeir mér að fara endilega í lobbuna.

Þetta tók tæpa tvo tíma, ég var að labba fram og aftur fyrir framan myndavélina og kíkja í herbergi (sjúklingurinn tínist víst) og hringja svo í lögguna til að tilkynna hvarfið.

Ég var aðeins að spjalla svona við sjónvarpsfólkið og það kom upp að ég flutti hingað eftir að hafa fundið Riku í gegn um netið. Þeim fannst það voða sniðugt og fengu nafn og síma ef ske kynni að þeir gerðu einhvern þátt um svoleiðis.

Alltaf gaman að vera íslenska selebið. Fólk verður mjög forvitið þegar það fréttir að ég er íslensk. Spyrja ávalt hversvegna ég kom hingað. Það er svolítið þreytandi að svara þessu aftur og aftur og aftur en ég skil alveg forvitnina. Ég myndi áraðinlega líka spyrja einhvern útlending.
Sagan er dálítið búin að styttast núna, oftast nægir bara að ég segi að hitti mann.

Það er kona sem er í flamencotíma (þurfti að koma smá flamenco líka haha ) á eftir okkur Hebu. Hún heyrði að við vorum að tala íslensku og spurði okkur hvort við værum íslenskar. Hún hefur víst einhverntíman fyrir tuttugu árum farið til íslands á íslenskunámskeið. Var einhver stuttur kúrs til að kynnast landi og menningu. Það er voða gaman alltaf þegar við hittum hana að spyrja á íslensku "hvað segiru gott" og segja "góðan daginn".

Ég tók tvær myndir á labbi í dag. Ein er af bílskúrum (áhersla á skúra) og hin er af bíl sem var stungið í samband. Ég þarf að fá Söndru til að segja mér hvernig sé best að byrta myndir á blogginu. Ég er með myndasíðu annars staðar en ég er ekki alveg viss hvort að það sé betra að nota hana eða hvort að það sé annar möguleiki.

Thursday, March 08, 2007

Ekki einfaldast hlutirnir

Þurfti að fara í gegn um þvílíka króka til að komast inn á bloggið. En komst samt :-)

Í dag var síðasti dagurinn á gömlu deildinni minni. Ég var í fríi en kíkti samt í kaffi. Það voru kökur þarna á boðstólunum. Ég ákvað að koma með eitthvað íslenskt. Ég bakaði (lesist horfði á Hebu baka fyrir mig) vatnsdeigsbollur. Þær féllu vel en voru ekki eins sérstakar og ég hafði vonast til. Þeim fannst þetta eitthvað kunnuglegt á bragðið.

Annars gerðust undur og stórmerki í vinnunni hjá mér, mér var boðinn fastur samningur. Ég þáði hann. Hugsaði málið í nokkra daga en ákvað svo að væri betra að hafa fastan samning heldur en svona smá samninga hér og þar. Þessu fylgja þau hlunnindi að ég verð ekki lengur í hvítum vinnufötum með ruslasmellum sem opnast allt og auðveldlega :-D

Hvítu fötin fara í pirrurnar á mér af því að það sést allt of vel í gegn um þetta ef maður er tildæmis í skræpóttum naríum. Jakkinn er það síður að ég er alltaf að festa faldinn í rúmunum og svo þegar ég hreyfi mig opnast allt. Ég er reyndar alltaf í bol undir en þykir samt ekkert gaman að vinnugallinn opnist án leyfis.

Ég ætlaði að bölva aðeins bílskúrnum mínum hérna. Maður er vanur svo fínum bílskúrum frá íslandi, fólk hefur jafnvel búið í þessu. Hérna aftur á móti er þetta bara skúr. Þetta er svona járnskúr, einn langur fyrir alla og það eina sem skilur á milli eru einhverjar járnsúlur (þeas er hægt að labba yfir í skúr nágrannans). Svo er þetta svo þröngt að maður verður helst að tæma bílinn af fólki og hlutum áður en maður smeygir bílnum inn. Til að komast sjálfur úr bílnum verður svo að skáskjóta sér. Ég skil ekki hvernig þybbið fólk getur notað þetta, ég er svona í minna laginu og á erfitt með að komast í og úr bíl.

Lítur aðeins út fyrir að veturinn sé að fara. Það er tveggja stiga hiti núna. Þetta var ákaflega stuttur vetur. Annars þá þýðist nafn mars, "maaliskuu" sem "jarðar"mánuður. Þá sér maður sko í jörð. Febrúar er helmikuu eða perlumánuður og janúar er tammikuu eða eikarmánuðurinn (frost eins hörð og eik er mér sagt). Finnsku mánaðarheitin eru mun skemmtilegri en þessi íslensku/indoevrósku.

Pilsasmíðarnar mínar gengu ekkert allt of vel. Faldurinn á pilsinu er 4m og þar sem ég ætlaði að hafa 1.5sinnum þá lengd rykkta neðan á faldinn (úff hvað heitir svona á íslensku) var ég búin að reikna að ég þyrfti 6 metra til að bæta við. Ég mældi hvað efnið var langt, og klippti niður 8 búta. Faldaði þetta allt og festi saman. Svo kom af því að festa síðustu endana saman. Ég fékk Riku til að hjálpa mér, rétti honum annan endan og labbaði af stað með hinn. Þetta var eitthvað ógurlega langt. Ég var víst með 12 metra. Efnið hafði legið tvöfalt þegar ég mældi það. Núna er ég að velta fyrir mér hversu mikið efni ég ætti að nota í rykkinguna þarna að neðan, hvort ég komist upp með að nota 2x eða 8 metra. Frekar leiðinlegt að henda efninu þegar ég er búin að hafa svona mikið fyrir að falda þetta allt. Ég á eftir að gera hina rykkinguna, fékk eiginlega alveg nóg eftir 12 metrana.

Við Riku erum að fara að skreppa á eftir í gigantti, sem lítur alveg ótrúlega mikið út eins og elko heh. Þetta er sama búðin. Gamla steríóið mitt er alveg að fríka og ég ætlaði að kaupa nýtt. Ég keypti hitt fyrir 6 árum, held að einu kröfurnar hafi verið að það væri sem ódýrast. 6 ár er víst nokk gott þessa dagana. Hef ekki mikið notað það, svona af og til hennt einhverjum disk í það.

Ég er annars farið að hlusta svolítið mikið á spænska tónlist. Þið getið séð myndband við nýjasta uppáhaldslagið mitt hérna: http://www.youtube.com/watch?v=shwZTBkTPuo